Innlent

Geir fær stjórnarmyndunarumboð

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands veitti Geir H Haarde formanni Sjálfstæðisflokksins umboð til stjórnarmyndunar með Samfylkingunni á Bessastöðum í morgun. Forsetinn setti engan tímafrest á viðræðurnar, en telur æskilegt að þeim ljúki á viku til tíu dögum.

Geir H Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins kom til Bessastaða á slaginu klukkan ellefu í morgun. Þar gekk hann á fund Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands til að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og óska eftir umboði til myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Forsætisráðherrann og forsetinn funduðu í bókaherbergi Bessastaða í um hálftíma áður þeir kölluðu fjölmiðla til sín. Þar sagðist forsetinn hafa fallist á lausnarbeiðni forsætisráðherrans og stjórnar hans en jafnframt falið fráfarandi stjórn að starfa þar til ný hefði verið mynduð.

Þetta sagðist forsetinn gera í ljósi þess vilja sem fram hefði komið af hálfu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar til að mynda meirihlutastjórn. Forsetinn ætlar ekki að kalla til sín forystumenn annarra flokka á meðan Sjálfstæðisflokkur og Samfylking reyna með sér myndun ríkisstjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×