Innlent

Svandís og ungarnir sluppu með naumindum

Álftin Svandís uggði ekki að sér með ungana sína fimm þegar vargahópur gerði harða hríð að fjölskyldunni á Seltjarnarnesi í dag. Baldur Hrafnkell Jónsson myndatökumaður varð vitni að árásinni.

Þetta er líklega þrettánda árið í röð sem álftin Svandís og hennar maki gera sér hreiður við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi. Þar var hún Svandís og eiginmaðurinn að dóla sér með ungana fimm nú síðdegis í blíðviðrinu þegar skyndilega heyrðist mikið garg á himni. Þar reyndust samankomnir hópur máva í miklum árásarham. Vargurinn steypti sér niður úr loftinu og réðist á næstu álftir svo Svandís og fjölskylda hennar fylltust skelfingu og reyndu að flýja ósköpin. Þau sluppu með naumindum við varginn og þegar myndatökumaður Stöðvar 2 hvarf á braut ríkti friðsemdin ein á Bakkatjörn.

Svandís þessi varð landsfræg í kosningunum 1994 þegar þáverandi bæjarstjóri lét búa til hólma í Bakkatjörn. Ýmsir voru sannfærðir um að hólmurinn myndi ganga af fuglalífi í tjörninni dauðu og um skeið leit út fyrir að meirihlutinn tapaði kosningunum vegna bakkatjarnarhólms. En þá kom Svandís fljúgandi, afsannaði gagnrýnisraddirnar og meirihlutinn hélt velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×