Innlent

Segja góðan gang og anda í viðræðunum

Bæði Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sögðu góðan gang í viðræðum flokkanna um myndun nýrrrar ríkisstjórnar eftir fund sinn í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag. Auk þeirra komu Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, að viðræðunum í dag.

„Okkur miðaði vel áfram og það er góður andi í þessum viðræðum. Við höfum farið yfir nokkur mál og teljum að það séu góðar líkur til þess að við náum niðurstöðu innan ekki allt of langs tíma," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hvorki hún né Geir vildu segja til um það hvenær viðræðunum lyki en sögðust mundu funda áfram í dag, á morgun og hinn. Aðspurður sagði Geir byrjað að fara yfir málefnini en ekki byrjað að útdeila ráðuneytum. Góður andi væri í viðræðunum.

Ekki bannað að spjalla saman

Geir H. Haarde var spurður út í þau ummæli Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, á vef flokksins að trúnaðarbrestur hefði orðið á milli flokkanna í viðræðum síðustu daga þar sem sjálfstæðismenn hefðu einnig verið að ræða við aðra flokka. Sagðist Geir ósammála því mati Jóns að trúnaðarbrestur hefði orðið milli flokkanna.

„Ég tel að samstarf okkar hafi verið afar gott mun aldrei segja neitt slæmt um það," sagði Geir og bætti við: „Þetta er opið ferli, það vita allir hvernig það gengur fyrir sig. Þó að menn séu í viðræðum eru menn ekki bundnir og það ekki bannað að spjalla saman í því ferli." Sagðist hann enn fremur ekki vilja munnhöggvast við formann Framsóknarflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×