Innlent

Vonbrigði að ekki var hægt að mynda vinstristjórn

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/AB

Samfylkingin virðist vera tilbúin að fórna mörgum stefnumálum til að ná að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að sögn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna. Hann segir það vera vonbrigði að ekki náðist að mynda vinstristjórn og óttast að sú stjórn sem er í myndun verði of hægrisinnuð.

„Það var augljóslega búið að handsala allt fyrirfram og fundur Geirs H. Haarde með forsetanum í morgun staðfesti það," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, í samtali við Vísi. „Það er mjög einkennilegt að sjá að Geir geti farið til Bessastaða. Sagt af sér og fengið umboðið strax aftur."

Steingrímur segir óttast að stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks komi til með að verða of hægrisinnuð. „Þetta verður alltof hægrisinnuð stjórn. Vissulega eigum við eftir sjá hvar áherslurnar koma til með að liggja en það hefur þegar verið gefið í skyn að Samfylkingin hafi boðað eftirgjöf á ýmsum sviðum til þess að ná þessu betur saman. Samfylkingin virðist hafa lagt ofurkapp á að komast inn í þessa stjórn."

Þá segir Steingrímur tilboð Vinstri grænna til Samfylkingarinnar um að ganga til viðræðna um stjórnarmyndun ásamt Framsóknarflokknum enn standa. Hann segist þó ekki hafa trú á öðru en að Ingibjörg og Geir gangi frá samkomulagi sín á milli. „Við vorum tilbúnir til að mæla með því að Ingibjörg fengi forsætisráðherrastólinn. Tilboðið stendur enn og við höfum engu lokað. Hins vegar bera Geir og Ingibjörg sig þannig að það eru mestar líkur á því að þau komist að samkomulagi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×