Innlent

Jón býður Ingibjörgu forsætisráðherrastólinn

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að trúnaðarbrestur hafi orðið milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna vegna þess einkennilega vinnulags sem sjálfstæðismenn hafa viðhaft þess daga, að ræða við Samfylkinguna og Vinstri græna á meðan rætt hafi verið framsóknarmenn. Býður hann Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, forsætisráðherrastól í ríkisstjórn Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.

Jón ritar grein á vef Framsóknarflokksins, framsókn.is, þar sem hann sakar Sjálfstæðisflokkinn um ekki aðeins tvöfeldni heldur margfeldni. „Augljóst er að viðræður milli Sjálfstæðismanna og Samfylkingarinnar hafa verið komnar á flug áður en viðræðum milli stjórnarflokkanna var lokið í gær. Yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í morgunfréttum Ríkisútvarpsins á miðvikudagsmorguninn og aftur í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi staðfesta þetta. Í Kastljósinu í gærkvöldi sagði hún berum orðum að hún sjálf og Geir Haarde forsætisráðherra hefðu talast við á miðvikudeginum," segir Jón.

Jón segir enn fremur að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sé óskabarn eigenda eins stærsta auðfélags landsins. Það hafi komið berlega fram í sérblaði DV sem gefið var út í kosningavikunni Framsóknarflokknum til ófrægingar. Ef þessi nýja ríkisstjórn komist á koppinn verði hún trúlega kennd við foreldri sitt og nefnd Baugsstjórnin.

„Nú er ljóst að eiginlegar og formlegar stjórnarmyndunarviðræður eru framundan. Rétt er að það komi skýrlega fram af hálfu Framsóknarflokksins að það liggur fyrir að Framsóknarmenn hafa vel getað hugsað sér að benda á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til að leiða viðræður við aðra núverandi stjórnarandstæðinga og Framsóknarmenn, ef slíkur stjórnarmyndunarkostur kemur yfirleitt til greina af hálfu Samfylkingarinnar," segir Jón að lokum.

Pistil Jóns má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×