Innlent

Ker áfrýjar til Hæstaréttar

Ker hf. sem áður rak olíufélagið Esso hefur áfrýjað máli Sigurðar Hreinssonar húsasmiðs á Húsavík sem hann vann í héraðsdómi, til Hæstaréttar Íslands. Hinn 20. febrúar dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Ker hf. til að greiða Sigurði 15 þúsund krónur í bætur með vöxtum, en málið tengdist málaferlum vegna verðsamráðs olíufélaganna.

Sigurður krafðist þess hins vegar að fá 180 þúsund krónur í bætur vegna bensíns sem hann hafði keypt hjá Esso á því tímabili sem sannað þótti að stóru olíufélögin hafi átt með sér samráð. Málið byggði hann á bensínnótum frá árunum 1995 til 2001.

Kristinn Hallgrímsson lögmaður Kers, segir að málinu hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar á þriðjudag, degi áður en frestur til áfrýjunar rann út. Tíminn frá dómi héraðsdóms hafi verið notaður til gagnaöflunar, og menn ætuðu sér að hafa árangur sem erfiði í málinu fyrir Hæstarétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×