Innlent

Fingralangur golfari staðinn að verki

MYND/RE

Karlmaður á fimmtugsaldri var í gær handtekinn eftir að hann reyndi að stela golfkylfu úr verslun í Smáralindinni. Maðurinn gaf þá skýringu að hann væri að kaupa golfbolta og vildi vera viss um að þeir pössuðu við kylfuna. Alls voru sjö einstaklingar staðnir að búðarhnupli á höfuðborgarsvæðinu í gær og þá var tilkynnt um eitt innbrot í Breiðholti.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var golfáhugamaðurinn í för með konu á fertugsaldri. Sú hafði náð að stela ýmsum smávörum úr verslunum í Smáralindinni þegar hún var handtekinn.

Þá var einnig 28 ára gamall karlmaður tekinn í Smáralindinni fyrir að stela snyrtivörum. Sá notaði hníf til að gera þjófavörnina á umbúðunum óvirka.

Í Vesturbænum voru tveir 16 ára piltar staðnir að hnupli í matvöruverslun og í Breiðholti stálu karlmaður á fertugsaldri og kona um tvítugt DVD ferðaspilara frá bensínstöð. Á öllum stöðunum náðust þjófarnir á öryggismyndavélar.

Þá var tilkynnt um innbrot í Breiðholti í nótt. Húsráðandi saknaði raftækja en þjófsins er enn leitað.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×