Innlent

Sorpbrennslustöð á Húsavík skemmdist í bruna

MYND/Lillý

Sorpbrennslustöðin á Húsavík skemmdist töluvert í bruna í gærkvöld og verður ekki hægt að brenna sorp þar á næstunni. Að sögn lögreglunnar á Húsavík var tilkynnt um eldinn korter í tíu í gærkvöld og var þá allt tiltækt slökkvilið hvatt á vettvang.

Töluverður eldur var í húsinu og segir lögregla að hitinn hafi verið svo mikill að stálbitar hafi verið farnir að bogna. Slökkvistarfi var að mestu lokið tæpum klukkutíma síðar en ljóst þykir að töluverðar skemmdir hafi orðið á rafbúnaði í húsinu.

Talið er að eldurinn hafi kviknað í fitu sem sem rann úr brennsluofni í stöðinni en hann er notaður til að brenna kjötafganga. Reiknað er með að sorp úr bænum verði urðað á meðan gert er við sorpbrennslustöðina. Þess má geta að stöðin var tekin í notkun í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×