Innlent

Viðvera leikskólabarna stöðugt að lengjast

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Viðvera barna í leikskólum er stöðugt að lengjast samkvæmt tölum Hagstofunnar. Árið 1998 voru rúmlega 40 prósent barna í leikskólum skráð í 8 tíma viðveru eða lengur. Fjórum árum síðar var þetta hlutfall komið í rúmlega 60 prósent og árið 2006 eru 75 prósent allra barna í leikskólum skráð í að minnsta kost 8 tíma daglega viðveru. Eilítið hærra hlutfall drengja en stúlkna er skráð í lengri viðveru.

Alls voru ríflega 17.200 börn á leikskólum á Íslandi í árslok í fyrra og hafa þau aldrei verið fleiri. Hefur þeim fjölgað um rúmlega 350 frá fyrra ári eða um 2,1 prósent. Það er töluvert meiri fjölgun en undanfarin ár. Átta af hverjum tíu börnum á aldrinum eins til fimm ára sækja leikskóla og er hlutfallið 96 prósent í þriggja ára og fjögurra ára aldurshópunum.

Leikskólabörnum sem hafa annað móðurmál en íslensku fjölgar áfram og eru nú 1.333 talsins, eða 7,7 prósent allra leikskólabarna. Fram kemur á vef Hagstofunnar að algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna sé pólska og í öðru sæti er enska. Frá árinu 1998 hefur enskumælandi leikskólabörnum fjölgað um 38 prósent en á sama tíma hefur pólskumælandi börnum fjölgað nærri fimm hundruð prósent.

Alls voru 267 leikskólar starfandi í desember í fyrra og hafði þeim fjölgað um 5 frá desember 2005. 31 leikskólanna var einkarekinn og sóttu ríflega 1800 börn þannig skóla, eða rúmlega tíunda hvert barn. Hafði þeim fjölgað um ríflega um nærri 19 prósent á milli ára. Þá nutu tæplega þúsund börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika á leikskólum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×