Innlent

Eltu uppi bílþjóf í Ölfusi

MYND/Guðmundur

Lögreglan á Selfossi veitti í morgun manni eftirför sem stolið hafði sendibíl í Keflavík í nótt. Eftir því sem segir í tilkynningu frá lögreglu var hún að svipast um eftir bílnum í sínu umdæmi og mættu lögreglumenn honum á Krísuvíkuvegir í Selvogi.

Gáfu þeir ökumanni bílsins stöðvunarmerki sem hann sinnti ekki. Hófst þar með eftirförin þar sem ökumaður sendibifreiðarinnar ók hratt og ógætilega, þar á meðal í gengum bæjarhlaðið á Hrauni í Ölfusi. Lauk eftirförinni með því að maðurinn ók inn að sandgryfjum vestan við Óseyrarbrú þar sem hann var króaður af. Hann brá þá á það ráð að hlaupa frá bifreiðinni en lögreglumenn eltu hann uppi.

Félagi mannsins var á annari bifreið og kom skömmu síðar í lögreglustöðina og var handtekinn þar. Í bifreið hans fannst biblía og sálmabók merkt Krísuvíkurkirkju og er talið að maðurinn hafi stolið bókunum þar. Sendibifreiðin var hins vegar full af glugga- og hurðakörmum og leikur grunum á að félagarnir hafi stolið þeim í Keflavík. Það mál er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Ökumaður sendibifreiðarinnar var sviptur ökurétti til bráðabirgða vegna háskaaksturs og meintra fíkniefnaáhrifa við aksturinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×