Innlent

Svíar gefa Íslendingum 800 fornmuni

Svíar hafa ákveðið að afhenda Íslendingum til eignar hunduð fornmuna sem nú eru í geymslu í Norræna safninu í Stokkhólmi. Munirnir verða í framtíðinni geymdir í Þjóðminjasafni Íslands.

Flestir gripanna eru frá 18. og 19. öld og komu upphaflega af bæjum víða um land, margir frá Vesturlandi. Norræna safnið í Stokkhólmi eignaðist gripina á seinni hluta 19. aldar, en það var í samræmi við stefnu safnsins sem vildi varpa ljósi á norræna menningu.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður hefur átt í viðræðum við forstöðumann Norræna safnsins undanfarin ár um framtíðarvörslu íslenskra gripa safnsins á Íslandi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að um sé að ræða tæplega 800 gripi. Þetta sé búningaskart, söðlar horn og fleira sem átti að sýna íslenska alþýðumenningu á Norræna safninu.

"Fyrir mína parta sýnir þetta mikinn vinahug og vinaþel Svía í okkar garð og þetta er stórmerkilegt að við skulum vera að fá alla þessa muni heim," segir menntamálaráðherra.

Ráðherra segir að það sé ein meginforsendan fyrir því að geta tekið á móti þessum gripum, að Þjóðminjasafnið hafi verið endurreist. Íslendingar séu nú mun betur í stakk búnir til að taka á móti þessum gripum og gera á þeim rannsóknir.

Menntamálaráðuneytð styrkir kostnaðinn við flutning gripanna til Íslands. En gripirnir verða sendir til Íslands um miðjan nóvember.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×