Innlent

Kærir Ísland í dag vegna umfjöllunar um aðbúnað verkamanna

MYND/Stöð 2

Fyrirtækið Húsaleiga ehf. fól í dag lögmanni sínum að leggja fram kæru á hendur forsvarsmönnum Íslands í dag vegna umfjöllunar þáttarins um aðbúnað erlendra verkamanna á Íslandi.

Í tilkynningu frá Húsaleigu segir að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi ítrekað verið dregnir inn í afar neikvæða umræðu Íslands í dag um aðbúnað erlendra verkamanna og svo virðist sem dagskrárgerðarmenn þáttarins hafi lagt sig fram um að draga upp sem neikvæðasta mynd af forsvarsmanni fyrirtækisins og hafi staðreyndir verið látnar víkja fyrir því sem betur hafi hentað fyrir umfjöllunina.

Telji lögmaður Húsaleigu eru þessi vinnubrögð Íslands í dag óforsvaranleg og varði meðal annars við almenn hegningarlög nr. 19/1940 og lög um prentrétt nr. 57/1956.

Bent er á í tilkynningunni að áframhald verði á umfjölluninni í Íslandi í dag í kvöld og hafi verið skorað á ritstjóra þáttarins að hætta við áður auglýsta umfjöllun um Húsaleigu og forsvarsmenn félagsins enda fyrirséð að öðrum kosti að um auknar refsi- og skaðabótakröfur verði að ræða í fyrirhuguðu dómsmáli. Ritstjóri Íslands í dag hafi hafnað þeirri áskorun.

„Dagskrárgerðarmenn Íslands í dag hafa í dag boðið forsvarsmönnum Húsaleigu ehf í viðtal, svo fyrirtækið geti skýrt sína afstöðu til þeirra ásakana sem komið hafa fram í þættinum. Þessu boði höfnuðu forsvarsmenn fyrirtækisins að vel ígrunduðu máli. Afstaða Húsaleigu ehf til "fréttaflutnings" Íslands í dag liggur ljós fyrir og kom m.a. fram í yfirlýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í dag, 24. apríl 2007. Ennfremur væri óeðlilegt að forsvarsmenn Húsaleigu ehf þyrftu að verja hendur sínar í fjölmiðli sem fyrirtækið stendur í málaferlum við," segir að endingu í tilkynningu Húsaleigu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×