Innlent

Árituð smásaga eftir Kjarval boðin upp

Bókin er árituð til Ástu, sem Kjarval kallar Frú Austurstræti.
Bókin er árituð til Ástu, sem Kjarval kallar Frú Austurstræti.
Á uppboðsvefnum ebay.com er nú til sölu hefti eftir Jóhannes S. Kjarval sem ber heitið „Hvalasagan frá átján hundruð nítíu og sjö," auk fleiri muna. Innan á kápu heftisins er áritun frá Kjarval til Ástu, sem eigandi heftisins, sem ekki vill láta nafns síns getið, telur að sé amma sín. Hann segir heftið einstakt, ekki síst vegna áritunarinnar, og opnunarboðið á ebay hljóðar upp á 58.500.00 dollara, eða tæpar 3,8 milljónir íslenskra króna.

 

Áritunin innan á kápunni er á þessa leið: „Ásta, frú austurstræti. Kær kveðja, Jóhannes S. Kjarval." Með í kaupunum fylgir blaðagrein um Hvalasögu úr Morgunblaðinu frá árinu 1980 auk boðsmiða á afmælissýningu Kjarvals sem einnig er árituð af listamanninum. Sagan var gefin út árið 1957. „Í blaðagreininni er Kjarval sagður hafa verið á undan sinni samtíð í náttúruvernd og vísað er í grein sem hann skrifaði gegn hvalveiðum í mars árið 1948 en þá stóð til að hefja veiðar í stórum stíl."

 

Engin tilboð hafa enn borist í Hvalasögu en seljandinn segir marga hafa sýnt henni áhuga á þeim stutta tíma sem liðin er síðan hann auglýsti hana, en uppboðinu lýkur eftir tíu daga. „Faðir minn var með þessa bók í fórum sínum og lét mig hafa hana fyrir nokkrum dögum síðan og bað mig um að athuga með hvort einhver hefði áhuga á henni," segir seljandinn. Hann segist telja að Ásta, sem Kjarval áritar bókina fyrir, hafi verið amma sín, en veit engin nánari deili á kynnum hennar við listamanninn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×