Innlent

Samið um orkusölu vegna álvers í Helguvík

Norðurál og Hitaveita Suðurnesja undirrituðu í dag samning um orkusölu til fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík. Samkvæmt samningnum mun HS útvega Norðuráli raforku fyrir álverið í Helguvík, þar á meðal allt að 150 megavött fyrir fyrsta áfanga álversins sem miðast við 150.000 tonna ársframleiðslu.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá HS og Norðuráli undirrituðu Reykjanesbær, Hitaveita Suðurnesja og Norðurál á vormánuðum 2005 samstarfssamning um könnun á möguleikum þess að álver yrði reist. Strax í kjölfarið var farið af stað með frekari könnun á orkuöflun, umhverfisskilyrðum, hafnaraðstæðum, staðsetningu og öðrum þáttum. Í júní í fyrra undirrituðu Norðurál, Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur svo viljayfirlýsingu um raforkusölu til fyrirhugaðs álvers í Helguvík.

Þá segir enn fremur í tilkynningunni að unnið hafi verið markvisst að undirbúningi og gangi allt samkvæmt áætlun er áformað að jarðvegsframkvæmdir hefjist í lok þessa árs og að fyrsta afhending orku til álvinnslu verði árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×