Innlent

Vilja að sveitarfélögin leggi 100 milljónir í betra gólf

Frá leik Keflavíkur og Hauka í vetur.
Frá leik Keflavíkur og Hauka í vetur. MYND/AB

Öll körfuboltalið landsins í efstu deild karla og kvenna skulu leika á parketgólfi en ekki dúk, frá og með keppnistímabilinu 2008 til 2009 samkvæmt tillögum sem liggja fyrir ársþing Körfuknattleikssambands Íslands. Talið er að heildarkostnaður vegna þessa sé um 100 milljónir króna og mun hann falla á sveitarfélögin.

Ársþing Körfuknattleikssambands Íslands verður haldið 4. og 5. maí nk. á Flúðum. Á meðal þess sem stjórn sambandsins hyggst leggja fram til samþykktar á þinginu er tillaga um að öll félög í úrvalsdeildum karla og kvenna skuli leika heimaleiki sína á parketgólfi frá og með leiktíðinni 2008 til 2009. Mun minni hætta er á álagsmeiðslum á parketgólfi en venjulegum dúk.

Öll suðurnesjaliðin eru komin með parket en einnig Snæfell. Þá ætla nýkrýndir Íslandsmeistarar KR setja parket á sitt gólf í sumar. Flest önnur félög í efstu deild eins og ÍR, Fjölnir, Hamar Selfoss, Tindastóll, Stjarnan, Haukar og fleiri þyrftu að skipta út dúknum á sínum heimavöllum fyrir parket. Kostnaðurinn við slíkt er um 15 milljónir króna á hvert hús og er því hér um 100 milljón króna framkvæmd að ræða. Ný lið sem koma inn í efstu deild frá með 2009 fá eitt ár í aðlögunartíma en verða að öðrum kosti að spila heimaleiki sína annars staðar.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með því að fastsetja parketgólf í reglugerð, líkt og KSÍ gerði með áhorfendastúkur á sínum tíma, hafa félögin öflugt tæki til þess að fara með til sinnar sveitarstjórnar til þess að fá parketgólf sem hentar körfuboltaíþróttinni sem best.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×