Innlent

Mikil fjölgun farþega um Egilsstaðaflugvöll

Farþegum sem fara um Egilsstaðaflugvöll hefur fjölgað um 150 prósent á undanförnum fjórum árum. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs hefur fjölgunin verið 17 prósent. Hafnar eru framkvæmdir við stækkun flugstöðvarinnar á flugvellinum.

Þetta er tvímælalaust mesti vöxtur í innanlandsflugi á Íslandi og þá hefur utanlands umferðin aukist mikið líka. En hún hóf að aukast árið 2005 en þá varð veruleg aukning, þegar farþegum í millilandaflugi fjölgaði úr 1.500 í 15.100. Í fyrra voru millilandafarþegarnir 19 þúsund og munar þar mest um Pólverja sem vinna við Kárhnjúka og við uppbyggingu Fjarðaáls á Reyðarfirði, sem flogið er með einu sinni í viku milli Egilsstaða og Varsjár. Egilsstaðir eru því þriðji annasamasti millilandaflugvöllurinn í landinu á eftir Keflavík og Reykjavík. Öll þessi aukna umferð kallar á breytingar á flugvellinum.

Þetta er rúmlega 40 prósenta stækkun á flugstöðinni og einnig stendur til að lengja flugbrautina en unnið er að tillögum þar að lútandi.

Það kemur fyrir að áætlunarflugvélar í millilandaflugi geti ekki lent á Keflavíkurflugvelli og lendi á Egilsstaðaflugvelli. Þá er ekki ólíklegt að reglulegt flug stærri flugvéla verði til Egilsstaða í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×