Innlent

Borgin vill kaupa húsin sem brunnu

Borgaryfirvöld hafa ákveðið að hefja viðræður við eigendur húsanna tveggja sem brunnu síðastliðinn miðvikudag í miðbæ Reykjavíkur um kaup á lóðunum tveimur í þeim tilgangi að hefja uppbyggingu þar sem fyrst. Samningaviðræður hefjast í næstu viku.

Borgaryfirvöld héldu fund í morgun í Ráðhúsi Reykjavíkur með fulltrúum Vátryggingafélagsins og eigenda húsanna. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, sagði að farið hefði verið yfir málið í heild sinni.

„Það var ákveðið að borgin færi í viðræður við eigendur lóðanna um kaup á þessum lóðum og lóðaréttindum. Það er gert í þeim tilgangi að hraða þessu verki eins og kostur er og tryggja það að þessi uppbygging verði öllum til sóma og að götumyndin haldist og verði næst sínum uppruna," sagði Vilhjálmur.

Eigendur segjast vera opnir fyrir tillögum borgaryfirvalda. Viðræður um kaupin á lóðunum hefjast í næstu viku. Mögulegt kaupverð liggur ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×