Innlent

20 milljóna bónus ef tekst að flýta Tröllatunguvegi

Vegagerðin hefur gengið frá verksamningi við lægstbjóðanda, Ingileif Jónsson ehf., um Tröllatunguveg, sem styttir leiðina milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um fjörutíu kílómetra. Verktakanum býðst að fá tuttugu milljóna króna bónus, takist honum að koma bundnu slitlagi á veginn fyrir 1. september á næsta ári.

Nýi vegurinn liggur milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar og er um 25 kílómetra langur. Ingileifur Jónsson bauðst til að leggja veginn fyrir 662 milljónir króna, sem var 76 prósent af kostnaðaráætlun. Þrír undirverktakar taka þátt í verkinu. Fossvélar á Selfossi sjá um efnisvinnslu, Suðurverk um sprengingar og Borgarverk um klæðningu. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í næsta mánuði. Byrjað verður að sunnanverðu með því að leggja veginn upp Gautsdal en ekki er gert ráð fyrir því að vinna neitt að ráði Strandamegin í Arnkötludalnum fyrr en á næsta ári. Ljóst er að áhrif þessarar vegagerðar verða víðtækari en margur gæti ætlað við fyrstu sýn. Auk þess að efla samskipti milli Stranda og Reykhólasveitar mun nýja leiðin væntanlega skapa Dalamönnum fleiri störf við að þjónusta þá auknu bílaumferð, sem fara mun í gegn hjá þeim. Aðalleiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar liggur nú um Holtavörðuheiði og Hrútafjörð en með opnun Tröllatunguvegar má gera ráð fyrir að Ísafjarðarumferðin færist að mestu yfir á hann og fari þá um Bröttubrekku, Búðardal og Gilsfjörð, enda er sú leið um 40 kílómetrum styttri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×