Innlent

Missti stjórn á bílnum og hafnaði út í sjó

Frá Djúpavogi.
Frá Djúpavogi. MYND/ÍÖS

Ökumaður á Djúpavogi missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af veginum og hafnaði út í sjó. Þegar lögregluna bar að garði var ökumaðurinn á bak og burt. Grunur leikur á að um ölvunarakstur hafi verið að ræða.

Það var um hálf níuleytið í morgun að lögreglan á Djúpavogi fékk tilkynningu um að bíll lægi hálfur í flæðarmálinu við þorpið. Þegar lögreglan kom á svæðið var bílllinn hins vegar mannlaus.

Lögreglunni tókst þó að hafa uppi á eigandanum sem er karlmaður á þrítugsaldri. Svo virðist sem hann hafi misst stjórn á bílnum á veginum sem liggur inn í þorpið með þeim afleiðingum að hann fór fram af háum vegkanti við fjöruborðið og lenti á hjólunum í flæðarmálinu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er maðurinn ómeiddur en bíllinn, sem er af gerðinni Toyota Raf, mikið skemmdur. Grunur leikur á að um ölvunarakstur hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×