Innlent

Landeigendur vilja svör frá ráðherra

MYND/Vegagerðin

Landssamtök landeigenda hafa óskað eftir fundi með fjármálaráðherra til að ítreka kröfu sína að lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda verði breytt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Í tilkynningunni kemur fram að samtökin hafi óskað formlega eftir því snemma í aprílmánuði að fá skrifleg svör frá stjórnmálaflokkum landins hvort þeir hyggðust beita sér fyrir breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og afrétta. Enn sem komið er hefur enginn flokkur svarað erindi samtakanna.

Meginkrafa Landssamtaka landeigenda er sú að jörð, með athugasemdalausu og þinglýstu landamerkjabréfi, teljist eignarland. Sá sem haldi öðru fram beri sönnunarbyrði fyrir máli sínu.

Í tilkynningu samtakanna er ályktunum flokksþinga sjálfstæðis- og framsóknarmanna þessa efnis að skapa beri sátt um eignarhald á landi fagnað. Samtökin ítreka þó ósk sína um að fá að vita hvað felist nákvæmlega í þessum ályktunum.

Samtökin hafa því óskað eftir fundi með Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, til að ítreka við hann sjónarmið sín og fá svör við brennandi spurningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×