Innlent

Sjá helst sóknarfæri í virkjunarlóni sem nú telst umhverfisslys

Frambjóðendur þeirra tveggja flokka sem helst kenna sig við umhverfisvernd hafa, spurðir um sóknarfærin í atvinnumálum, sérstaklega nefnt Bláa lónið. Forstjóri Hitaveitu Suðurnesja segir að samkvæmt gildandi lögum sé Bláa lónið umhverfisslys, sem yrði ekki leyft í dag.

Í kosningaþætti Stöðvar tvö í Suðurkjördæmi í síðustu viku voru frambjóðendur flokka spurðir um atvinnumál og hvar þeir sæju sóknarfærin. Bæði Atli Gíslason, oddviti vinstri grænna, og Ásta Þorleifsdóttir, oddviti Íslandshreyfingarinnar, nefndu Bláa lónið sem einn helsta kostinn.

Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir Bláa lónið skilgreint sem umhverfisslys, samkvæmt núgildandi lögum. Upphaf lónsins má rekja til jarðgufuvirkjunar Hitaveitunnar í Svartsengi sem hóf starfsemi árið 1975, löngu áður en lög um umhverfismat voru sett. Þegar búið var að virkja orkuna úr jarðsjónum, sem kom upp úr borholunum, var affallinu einfaldlega dælt út í hraun. Nokkrum árum seinna hafði myndast þar lón sem fólk tók að baða sig í og var fljótlega nefnt Bláa lónið.

Júlíus segir að þetta yrði ekki leyft í dag. Í nýjum virkjunum sé þess krafist að vatninu sé aftur dælt ofan í jörðina. Þannig er það til dæmis gert í Hellisheiðarvirkjun. Í þessu ljósi verður það að teljast athyglisvert að stjórnmálaflokkar sem setja umhverfisvernd á oddinn skuli sjá sóknarfærin í virkjunarlóni sem nú telst vera umhverfisslys.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×