Innlent

Rúmlega 450 börn skráðu sig í áheyrnarprufu hjá LA

Rúmlega 450 ungmenni skráðu sig í áheyrnarprufu hjá Leikfélagi Akureyrar í dag vegna þátttöku í leiksýningunni Óvitar. Löng biðröð myndaðist fyrir framan hús leikfélagsins áður en skráningar hófust.

„Það er mikill leikhúsáhugi í Eyjafirði um þessar mundir. Það er alveg ljóst," sagði Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri, í samtali við Vísi. „Það liggur við að annað hvert barn í Eyjafirði hafi skráð sig í prufu."

Leikfélag Akureyrar auglýsti um daginn eftir 15 börnum á aldrinum 7 til 14 ára til að taka þátt í leiksýningunni Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur. Sýningin verður frumsýnd hjá leikfélaginu næsta haust.

Um klukkutíma áður en opnað var fyrir skráningar í dag hafði löng biðröð myndast fyrir fram hús leikfélagsins og náði hún meðfram öllu húsinu. Greiðlega gekk þó að skrá alla og munu prufurnar sjálfar fara fram eftir tvær vikur.

Að sögn Magnúsar er gert ráð fyrir að áheyrnarprufurnar taki þrjá daga en þar verða börnin meðal annars látin syngja og þeim síðan leikstýrt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×