Innlent

Bílaflotinn mengar mest í Reykjavík

Útblástur frá bílum veldur mikilli mengun.
Útblástur frá bílum veldur mikilli mengun. MYND/GVA

Útstreymi gróðurhúsaloftegunda frá fólksbílum í Reykjavík jókst um 30 prósent á tímabilinu 1999 til 2005. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar um umhverfisvísa borgarinnar. Á sama tíma hefur mengandi úblástur frá strætisvögnum dregist saman um 13 prósent.

Um er að ræða fjórðu skýrslu Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar um umhverfisvísa borgarinnar en höfundur skýrslunnar er Hjalti J. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Stefnumörkunar og þróunar á Umhverfissviði.

Samkvæmt skýrslunni hefur góður árangur náðst í því að draga úr mengun í höfuðborginni undanfarin áratug á öllum sviðum nema þeim er snúa að eldsneytisnotkun samgöngutækja. Þannig hefur hlutfall endurnýjanlega orkugjafa minnkað um 27 prósent á þessari öld vegna vaxandi jarðefnaeldsneytis í bílaflotanum.

Á móti kemur að verulega hefur dregið úr svifryki frá aldamótum og hefur það aldrei farið yfir heilsuverndarmörk á ársgrundvelli frá árinu 2000. Ennfremur sýnir skýrslan að aðrir umhverfisvísar eru í jafnvægi eða sýna jákvæða þróun. Til að mynd hefur saurgerlamengun í sjó minnkað verulega undanfarin ár samfara aukinni hreinsun skólps á höfuðborgarsvæðinu. Þá er ástand á drykkjarvatni mjög gott í Reykjavík.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×