Innlent

Tímamótasamningur um grænt hverfi í Garðabæ

Á myndinni eru frá vinstri; Erling Ásgeirsson, formaður bæjarráðs Garðabæjar, Gunnar Einarsson, Geir Zoëga og Ingjaldur Ásvaldsson stjórnmaður í Urriðaholti ehf.
Á myndinni eru frá vinstri; Erling Ásgeirsson, formaður bæjarráðs Garðabæjar, Gunnar Einarsson, Geir Zoëga og Ingjaldur Ásvaldsson stjórnmaður í Urriðaholti ehf.

Í dag var skrifað undir samsstarfssamning Garðabæjar og Urriðaholts ehf. um uppbyggingu á Urriðaholti, nýjum bæjarhluta í Garðabæ. Þar er gert ráð fyrir rúmlega 1.600 íbúðum og að íbúatalan verði um 4.400, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Íbúðabyggðin verður í suðurhlíð holtsins, ofan við Urriðavatn.

Gert er ráð fyrir um 150 þúsund fermetrum atvinnu- og þjónustuhúsnæðis, í viðskipta­stræti á norðanverðu holtinu. Farið verður að ráðstafa þessu svæði í haust og er áætlað að fjögur til fimm þúsund manns muni starfa þar í framtíðinni.

Á svæðinu munu því búa og starfa á bilinu átta til tíu þúsund manns.

Rammaskipulag Urriðaholts er um 101 hektari. Fyrir liggur samþykkt deiliskipulag fyrir fyrsta áfanga Urriðaholts, sem gerir ráð fyrir um 377 íbúðum.

Oddfellowreglan hefur lengi átt landsvæði við Urriðavatn og Heiðmörk. Reglan tók höndum saman við Viskustein ehf., fyrirtæki bræðranna Sigurðar Gísla Pálmasonar og Jóns Pálmasonar um þróun Urriðaholtsins og saman standa þessir aðilar að fyrirtækinu Urriðaholti ehf.

Til skamms tíma var rætt um að Háskólinn í Reykjavík nýtti hugsanlega svæðið en hann fékk síðan lóð við Öskjuhlíð.

Uppbygging Urriðaholts er sameiginlegt verkefni Urriðaholts ehf. og Garðabæjar. Garðabær annast gatnagerð og innheimtir gatnagerðargjöld, en Urriðaholt selur byggingarrétt. Sala á lóðum hefst 15. maí næstkomandi.

Tímamótaverkefni

Samkomulag er um að Urriðaholt ehf. taki þátt í kostnaði við uppbyggingu skóla og íþróttamannvirkja í Urriðaholti sem nemur kr. 1.338.000.000.

Þessi fjárhagslega þátttaka Urriðaholts ehf. í upbyggingu á skóla- og íþrótta­mann­virkjum eykur möguleika á að standa enn betur að þjónustu fyrir íbúa hverfisins. Ennfremur er samkomulag um að Urriðaholt ehf. verði virkur þátttakandi í undirbúningi þessarar uppbyggingar.

Verkefnið um uppbyggingu Urriðaholts er sérstakt að mörgu leyti og rætt er um tímamótaverkefni í uppbyggingu nýs bæjarhluta í því sambandi. Mikil vinna hefur verið lögð í að skipuleggja Urriðaholt með það fyrir augum að íbúar fái sem best notið útivistar og nálægðar við náttúruperlurnar Urriðavatn og Heiðmörk. Grænir geirar ganga í gegnum hverfið og þjóna sem útivistarsvæði, gönguleiðir og skjólbelti trjáa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×