Innlent

Þyrla Gæslunnar sótti slasaðan vélsleðamann

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kvödd norður í land nú seinni partinn vegna manns sem meiddist í vélsleðaslysi norðan við Kaldbak í Hraunsfjalli á Látraströnd.

Lögreglu barst tilkynning um slysið um 16.45. Svo virðist sem maður, sem var ásamt tveimur öðrum á vélsleða á þessum slóðum, hafi farið fram af snjóhengju og fallið tíu metra. Ekki var tekin nein áhætta heldur kallað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Hún lenti á staðnum um sjöleytið og átti hún að fljúga með manninn til Akureyrar þar sem hann verður skoðaður á Fjórðungssjúkrahúsinu. Lögregla segir ekki útlit fyrir að hann sé alvarlega slasaður, hann hafi verið með góðri meðvitund en kvartað undan eymslum í líkamanum.

Lögregla bendir að ef þyrlan hefði verið staðsett á Akureyri hefði hún verið um 20-25 mínútur á leiðinni á slysstað en frá Reykjavík tekur flugið hins vegar eina klukkustund og tíu mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×