Innlent

Vill losna við fanga til að flýta endurbyggingu fangelsis

Framkvæmdir við nýtt fangelsi eru að hefjast á Akureyri. Verktaki vill losna við fangana í önnur fangelsi til að geta flýtt verkinu en það er tormerkjum bundið þar öll fangahús eru yfirfull.

Fangelsismálayfirvöld stóðu frammi fyrir því tvennu að annaðhvort loka fangelsinu á Akureyri eða endurbyggja það. Aðstaða fanganna hefur löngum þótt ósæmandi. Þeir hafa lítið við að vera og búa hvorki við heimsóknaraðstöðu né útivistarmöguleika.

Ólafur Ásgeirsson aðstoðaryfirlögregluþjónn er því kátur yfir að framkvæmdir við nýtt fangelsi séu loks að hefjast eftir frestun útboða og vandræðagang.

Framkvæmdin kostar um 180 milljónir króna en óvíst er hvenær henni lýkur. Verktakinn hefur nefnilega boðist til að ljúka verkinu á mettíma ef hann losnar við fangana sem fyrir eru. En það gæti reynst snúið.

Að jafnaði eru um átta fangar á Akureyri en rýmum mun fjölga eitthvað eftir breytingarnar og stöðugildum fangavarða fjölga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×