Innlent

Sumardeginum fyrsta fagnað víða um land

Sumardagurinn fyrsti er í dag. Honum verður fagnað víða um land með skrúðgöngum og skemmtunum. Það ætti að gleðja landann að næturfrost var í nótt. Það ku vita á gott að sumar og vetur frjósi saman.

Það byrjar vel sumarið. Sól og bjart í Reykjavík og léttskýjað um nánast allt land. Þá þykir ekki verra að næturfrost var um allt land í nótt, sex stiga frost í Reykjavík og fór allt niður í ellefu stig á Staðarhóli á Norðausturlandi. Samkvæmt þjóðtrú veit það á gott sumar ef vetur og sumar frjósa saman aðfararnótt sumardagsins.

Í Reykjavík byrjaði dagurinn hjá skátunum með skátamessu í Hallgrímskirkju. Eftir hádegi verða skátafélögin svo með skrúðgöngur og uppákomur í sínum hverfum. Fyrstu skrúðgöngurnar í borginni voru í Árbænum í morgun en sú síðasta í Reykjavík fer frá Melaskóla klukkan eitt.

Þá verður mikil vorhátíð Tónabæjar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og hefst hún klukkan eitt og stendur til klukkan fjögur í dag. Upplýsingar um dagskrá sumardagsins á höfuðborgarsvæðinu eru á ferdalangur.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×