Innlent

Meirihluti landsmanna hlynntur því að Landspítalinn auglýsi þjónustu sína opinberlega

MYND/Hari

Traust almennings til Landspítala-háskólasjúkrahúss hefur aukist á undanförnum árum samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir spítalann. Meirihluti landsmanna eru hlynntir því að spítalinn auglýsi þjónustu sína opinberlega í fjölmiðlum.

Könnun Capacent Gallup var gerð á tímabilinu 22. mars til 3. apríl síðastliðins og náði hún til 1.350 manns á landinu öllu. Svarhlutfall var 61,1 prósent eða 801 en 323 neituðu að svara. Samkvæmt könnuninni eru 86,3 prósent landsmanna mjög jákvæðir eða frekar jákvæðir gagnvart Landspítalanum en um 6,8 frekar neikvæðir eða mjög neikvæðir. Í könnun sem gerð var árið 2004 voru 84,6 prósent landsmanna mjög jákvæði eða frekar jákvæðir gagnvart spítalanum og hefur hlutfall þeirra því aukist um rúm tvö prósent milli kannanna. Þá voru 5,2 prósent frekar neikvæð eða mjög neikvæð.

Alls telja um 41,1 prósent spítalann veita mjög góða þjónustu en um 3,7 prósent mjög slæma. Almennt virðast flestir hafa góða reynslu af samskiptum sínum við spítalann en 53,2 prósent sögðust hafa mjög góða reynslu og 35,4 prósent frekar góða reynslu. Óánægðir voru 0,8 prósent.

Þá kemur einnig fram í könnuninni að 61 prósent landsmanna eru mjög hlynntir eða frekar hlynntir því að spítalinn auglýsi þjónustu sína opinberlega. Frekar andvígir eða mjög andvígir voru 26,7 prósent og 12,3 prósent hvorki né.

 

Sjá könnunina í heild hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×