Innlent

Fyrirhuguð olíuhreinsistöð þverbrýtur alþjóðlegar skuldbindingar

MYND/Halldór

Fyrirhuguð olíuhreinsistöð á Vestfjörðum mun þverbrjóta alþjóðlegar skuldbingar íslenskra stjórnvalda varðandi takmörkun á útstreymi gróðurhúsaloftegunda. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands. Samtökin segja árleg losun koltvísýrings vegna stöðvarinnar muni nema milljón tonnum á ári og auka útstreymi um 30 prósent hér á landi. Þau gagnrýna ráðamenn fyrir þekkingarleysi.

Í yfirlýsingu samtakanna segir að samkvæmt sænskum staðli megi áætla að 120 þúsund tonn af koltvísýringi (CO2) myndist við hreinsun á 1 milljón tonna af olíu. Í áætlunum um framleiðslu olíuhreinsistöðvarinnar á Vestfjörðum er gert ráð fyrir 150 þúsund tunnum á dag. Samkvæmt því yrði losun koltvísýrings vegna hreinsistöðvarinnar ein milljón tonn á ári.

Ísland hefur heimild samkvæmt Kyoto bókuninni til að auka útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 10% á samningstímanum en verði af byggingu olíuhreinsistöðinni á Vestfjörðum mun útstreymi aukast um 30% eða langt umfram heimildir.

Þá segir í yfirlýsingunni að það sé óprúttinn leikur að veifa 500 nýjum störfum framan í Vestfirðinga í ljósi þess að sú starfsemi stenst ekki skuldbingar Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni. Ennfremur segir að það sé verulega slakt að æðstu ráðamenn þjóðarinnar virðast hvorki meðvitaðir um þær skuldbindingar né hitt að ríkisstjórnin hafi markað sér loftlagsstefnu sem felur í sér að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50 til 75 prósent fyrir árið 2050.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×