Innlent

Atvinnuleysi tvö prósent á fyrsta ársfjórðungi

Atvinnuleysi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var tvö prósent og voru að meðaltali 3.500 manns án vinnu og í atvinnuleit á tímabilinu. Þetta leiða tölur Hagstofunnar í ljós.

Jafnmikið atvinnuleysi var hjá konum og körlum en þegar litið er til aldurs var atvinnuleysið mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða nærri sjö prósent. Atvinnuleysi almennt á sama tímabili í fyrra var eilítið meira að 2,4 prósent.

Tölur Hagstofunnar leiða einnig í ljós að starfandi fólki á fyrsta ársfjórðungi ársins fjölgað um 9.300 frá sama tíma í fyrra. Alls voru 176.300 manns á vinnumarkaði sem jafngildir rúmlega 82 prósenta atvinnuþátttöku en hún var um tíu prósentum meiri hjá körlum en konum. Til samanburðar mældist atvinnuþátttaka á fyrsta ársfjórðungi 2006 81 prósent.

Meðalfjöldi vinnustunda hér á landi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var 41 og hálf klukkustund, rúmar 47 klukkustundir hjá körlum en tæpar 35 hjá konum. Það er mjög svipað og í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×