Innlent

Lokaáfangi vísindaveiða hefst í dag

Lokaáfangi vísindaveiða á hrefnu hefst í dag og er stefnt að því að veiða 39 dýr. Eftir því sem fram kemur á vef sjávarútvegsráðuneytisins er þetta liður í hrefnurannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar sem hófust í ágúst 2003.

Þær gerðu ráð fyrir að veiddar yrðu 200 hrefnur í samræmi við útbreiðslu tegundarinnar á landgrunni Íslands. Upphaflega stóð til að veiða dýrin á tveimur árum og taka úr þeim sýni en síðar var ákveðið að fara hægar í sakirnar. Alls hefur veiðst 161 hrefna og því á eftir að veiða 39 dýr.

Þá segir enn fremur á vef sjávarútvegsráðuneytisins að afurðir þeirra hrefna sem verða veiddar í ár verði nýttar eftir því sem hægt er þótt veiðarnar séu í vísindalegum tilgangi. Það er líkt og gert hefur verið undanfarin ár.

Meginmarkmið rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar er að kanna betur hlutverk hrefnu í vistkerfi hafsins í kringum Ísland en frumniðurstöður úr fyrri hluta rannsóknanna benda til að hlutdeild þorsks í fæðu hrefnu sé meiri en áður var talið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×