Innlent

Alcan fundaði með iðnaðarráðherra og Landsvirkjun

Wolfgang Stiller, stjórnarformaður Alcan á Íslandi, og Rannveig Rist forstjóri hafa í dag fundað með iðnaðarráðherra og ráðamönnum Landsvirkjunar um stöðu mála eftir álverskosninguna í Hafnarfirði. Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra neitar að ræða um það hvort til greina komi að Alcan fái Keilisnes undir nýtt álver.

Þau Rannveig Rist forstjóri, og Wolfgang Stiller, stjórnarformaður Alcan á Íslandi, áttu um sjötíu mínútna langan fund með iðnaðarráðherra í morgun, þann fyrsta með honum eftir að Hafnfirðingar höfnuðu breytingu á deiliskipulagi sem leitt hefði til stækkunar álversins í Straumsvík.

Rannveig sagði eftir fundinn að rætt hefði verið um venjulega hluti og niðurstöðuna úr kosningunum. Ekkert væri að gerast.

Alcan er undir tímapressu en viljayfirlýsing um orkusamning við Landsvirkjun rennur út um mitt sumar. Rannveig sagði aðspurð að ekkert hefði verið rætt um að fá framlengingu á viljayfirlýsingunni.

Meðal þeirra kosta sem líklegt þykir að Alcan vilji skoða er uppbygging nýs álvers á Keilisnesi á Vatnsleysuströnd. Ríkið á lóðina þar sem skipulögð var undir álver fyrir sautján árum. Rannveig sagði ekkert plan B til og sagði að hugmyndin um Keilisnes hefði ekkert verið skoðuð og neitaði því að ráðherra hefði verið spurður um hvort til greina kæmi að Alcan fengi þá lóð. Rannveig og Stiller funduðu svo eftir hádegi með ráðamönnum Landsvirkjunar.

Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra vildi ekki greina frá einstaka efnisatriðum fundarins í morgun og heldur ekki hvort minnst hefði verið á Keilisnes. Spurður hvort hann teldi þá lausn koma til greina fyrir Alcan sagði hann að ekki kæmi til greina að hann úttalaði sig um það. Ekkert lægi fyrir um það. Slíkt yrði að ræða með eðlilegum hætti innan stjórnsýslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×