Innlent

Menningarsjóður veitir 53 styrki

Alls fengu 53 aðilar styrk úr Menningarsjóði að þessu sinni en úthlutað var úr sjóðnum í síðustu viku. Hæsta styrkinn að upphæð einni milljón króna hlaut Hið íslenska bókmenntafélag fyrir rit eftir Kristínu Bragadóttur um Daníel Willard Fiske.

Alls bárust sjóðnum 107 umsóknir frá 73 aðilum með beiðni um styrki að fjárhæð 82 milljónum. Stjórn Mennigarsjóðs samþykkti samhljóða að veita 53 styrki, samtals að fjárhæð 14 milljónir króna.

Næst hæsta styrkinn, að upphæð 600 þúsund krónur, hlaut Þorsteinn Ingi Sigfússon fyrir bók sína um vetnið. Þá fékk JPV útgáfa 500 þúsund krónur fyrir verk Friðriks G. Olgeirssonar um ævi Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.

Af öðrum styrkþegum má nefna þá Illuga Jökulsson sem fékk 400 þúsund krónur fyrir bókina Merkismenn í Íslandssögunni og Eirík Bergmann Einarsson sem fékk 300 þúsund krónur fyrir verkið Opið land - staða Íslands í samfélagi þjóðanna. Þá fékk bókaútgáfan Tindur 300 þúsund krónur í styrk fyrir bók Ellerts B. Schram um 60 ára sögu Knattspyrnusambands Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×