Innlent

60 ára aðrennslislögn gaf sig

Aðrennslislögn að Gönguskarðsárvirkjun brast og féll þá aurskriða féll á Sauðárkrók í gærmorgun. Högg kom á lögnina eftir að verktakar tóku í sundur háspennujarðstreng.

Lögnin brast snemma í gærmorgun með þeim afleiðingum að vatn flæddi niður Nafirnar og kom af stað aurskriðu niður hlíðina ofan við Sauðárkrók og á sjö íbúðarhús. Það tók um 20 mínútur að loka fyrir vatnsflæðið í gærmorgun og á meðan flæddi aur og drulla niður hlíðina. Hreinsunarstarf hófst um leið og búið var að loka fyrir og stóð fram á kvöld í gær og hófst aftur snemma í morgun.

Talið er að ástæða þess að lögnin fór í sundur sé sú að verktakar sem voru við að taka grunn í iðnaðarhverfi í suðurhluta bæjarins hafi tekið í sundur jarðstreng. Það olli aftur keðjuverkun á rafkerfinu með tilheyrandi spennuhöggi. Þá hafi loki í stöðvarhúsinu lokast og lögnin brostið. Búnaður sem er til þess gerður að taka af slíkt högg virðist hafa brugðist í þessu tilviki.

Gönguskarðsárvirkjun er með elstu virkjunum sem Rafmagnsveitur ríkisins starfrækja en hún var tekin í gagnið árið 1949. Hún var aftur stækkuð árið 1961. Lögnin sem brast í gær er jafn gömul virkjuninni, er rúmlega tveggja kílómetra löng og byggð úr tré og járni. Virkjunin er ekki í daglegri notkun en hún afkastar um einu megavatti. Hún nýtist sem varastöð ef kerfi Landsnets bregst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×