Innlent

Skemmdarvargar í Hveragerði

MYND/Stefán K.

Alls voru 56 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í vikunni sem leið. Tveir ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá braust óprúttinn þjófur inn í bíl í Hveragerði og stal myndavél og um eitt hundrað geisladiskum. Miklar skemmdir voru unnar í gróðrastöðinni Fagrahvammi á fimmtudaginn.

Skemmdarvargarnir skáru á plast á nokkrum stöðum í gróðurskálum, garðslöngu og allt að 20 plöntur skornar niður. Þá var einnig hliðarrúða á númerslausri bifreið, sem stóð utan við gróuðrhúsin, brotin.

Skemmdarvargar voru einnig á ferðinni við Nesjavallavirkjun á Páskasunnudag en þá var keyrt á aðra af tveimur hliðarslám á vegi að stöðvarhúsinu.

Á fimmtudaginn var svo brotist inn í bifreið við Laufskóga í Hveragerði og hafði þjófurinn á brott með sér Kodak stafræna myndavél og tösku með um eitt hundrað geisladiskum. Komst þjófurinn inn í bílinn með því að brjóta afturrúðu hans með gangstéttarhellu. Ekki er vitað hver eða hverjir voru að verki og lýsir lögreglan eftir vísbendingum.

Þá kærði lögreglan á Selfossi þrjá ökumenn í síðustu viku fyrir að tala í farsíma án þess að nota handfrjálsan búnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×