Innlent

Hreinsunarstarf á Króknum fram á kvöld

MYND/Stöð 2

Hreinsunarstarf á Sauðárkróki eftir að aurflóð féllu þar á hús og vegi í morgun gengur vel að sögn lögreglu en hún reiknar með að ekki verið lokið við að moka aurnum burt fyrr en í kvöld.

Aurinn flæddi inn í að minnsta kosti fimm hús við Lindargötu og á bíla við götuna og þykir ljóst að tjónið hleypur á milljónum. Aurflóðið má rekja til þess að vatnstokkur sem liggur frá Göngurskarðárstíflu að virkjuninni sprakk og á meðan starfsmenn RARIK gerðu við vatnsstokkinn flæddi aur og drulla niður Nafirnar svokölluðu og á húsin og bílana. Meðal þeirra húsa sem urðu verst úti er eitt frægasta hús bæjarins, Villa Nova.

Björgunarsveitarmenn úr Skagafirði og verktakar frá Steypustöð Skagafjarðar hafa unnið að því að moka aurnum burt en eins og fyrr segir er ekki búist við því að þeir ljúki verki sínu fyrr en í kvöld. Þá fyrst verður hægt að meta tjónið almennilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×