Innlent

Kvartmilljón í dagsektir fyrir að vanrækja tilkynningar

Fyrirtækið Mest efh. þarf að greiða 250 þúsund krónur í dagssektir vegna ófullnægjandi tilkynningaskyldu um samruna þriggja fyrirtækja sem áttu sér stað í fyrra og árið 2005. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir ólíðandi að fyrirtæki vanræki tilkynningar um samruna fyrirtækja.

Samkeppniseftirlið greindi frá ákvörðun sinni í lok mars síðastliðnum. Málið má rekja allt til ársins 2005 en þá sameinuðust fyrirtækin Merkúr og Steypustöðin undir merkjum Mest ehf. Þá var í byrjun október 2006 umfjöllun í fréttum um samruna félaganna Mest ehf. og byggingarvöruverslunarinnar Súperbygg. Báðir samrunar voru tilkynningaskyldir samkvæmt 17. grein samkeppnislaga.

Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi ítrekað vakið athygli á tilkynningarskyldu Mest ehf. hefur eftirlitinu enn ekki borist fullnægjandi tilkynningar. Samkeppniseftirlitið ákvað því að leggja dagsektir á fyrirtækið upp á 250.000 krónur á dag þar til fullnægjandi tilkynningar berast eftirlitinu.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri eftirlitsins, segir að fyrirtækjum beri skylda til að tilkynna um samruna ekki síðar en viku eftir að hann eigi sér stað. Hann segir dagsektirnar ekki lúta að samruna fyrirtækjanna heldur að vanrækslu á tilkynningaskyldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×