Innlent

Saka Kópavogsbæ um að standa ekki við gerða samninga

Frá svæði Gusts í Glaðheimum í Kópavogi.
Frá svæði Gusts í Glaðheimum í Kópavogi. MYND/Vilhelm

Félagsmenn í Hestamannafélaginu Gusti sakar Kópavogsbæ um að standa ekki við gerða samninga við félagið, meðal annars um flutning félagsins á Kjóavelli.

Í ályktun sem samþykkt var á félagsfundi í gær er skorað á Kópavogsbæ að standa við gerða samninga við Gust, jafnt samninga um reiðleiðir út frá Glaðheimum og samninga um flutning félagsins og félagsmanna á Kjóavelli.

Eins og greint var frá í fréttum fyrir tæpu ári samdi Kópavogsbær við félagið um að kaupa hesthús og lóðir hestamanna í Gusti á svokölluðu Glaðheimasvæði og að Gustarar fengju nýtt svæði að Kjóavöllum.

Segja Gustarar að erfiðlega hafi gengið að fá bæjaryfirvöld til að standa við gerða samninga og tímaáætlanir varðandi flutningana. Allt stefni í að ekki verði af flutningi á Kjóavelli fyrr en í fyrsta lagi haustið 2008.

Hefur þessari ályktun verið komið á framfæri við bæjaryfirvöld í Kópavogi og til bæjarstjórans, Gunnars I. Birgissonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×