Innlent

Fresta skipulagningu svæða fyrir hugsanlegar virkjanir

Frá Skagafirði.
Frá Skagafirði.

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti í gær að fresta skipulagningu þeirra svæða sem ætluð hafa verið fyrir Skatastaða- og Villinganesvirkjun í þeirri tillögu að aðalskipulagi sem verið er að vinna að.

Deilur hafa staðið lengi um hvernig fara skuli með hugmyndir um virkjanir og aðra nýtingu virkjanasvæðanna og lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri - grænnna, sem eru í minnihluta í bæjarstjórn, fram tillögu í gær um að horfið yrði frá því að hafa Villinganesvirkjun inni á tillögu að aðalskipulagi til þess að flýta fyrir samþykkt þess.

Eftir því sem segir á heimasíðu Skagafjarðar komu fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar fram með breytingartillögu þess efnis að skipulagningu svæðanna yrði frestað og var sú tillaga samþykkt með atkvæðum Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en fulltrúi VG sat hjá.

Fram kemur í greingargerð með tillögunni að fram hafi komið nýjar hugmyndir sem nú sé verið að rannsaka en þær gera ráð fyrir að mögulegar virkjanir í Skagafirði verði hannaðar á þann hátt að þær hafi mun minni áhrif á náttúru og ferðaþjónustu á svæðinu en áður.

Segir enn fremur í greinargerðinni að tryggja verði að nýtingarréttur á umræddum svæðum verði í höndum Skagfirðinga og einungis valdir þeir kostir sem efli atvinnu og mannlíf innan héraðs.

Þá vill meirihlutinn einnig að ákvarðanir um nýtingu á Jökulsánum í Skagafirði og Héraðsvötnum verði aðeins teknar að undangengnum víðtækum rannsóknum og almennri upplýstri umræðu um kosti og galla nýtingarmöguleika, þar sem leitað verði álits íbúa Skagafjarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×