Innlent

Einstæðar mæður og einhleypir karlmenn leita mest til Ráðgjafarstofu

Einstæðar mæður og einhleypir karlmenn voru stærsti hópurinn sem leitaði til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna í fyrra. Helstu ástæður voru greiðsluerfiðleikar vegna veikinda og offjárfestinga. Hátt í sex hundruð manns leituðu til Ráðgjafarstofunnar í fyrra og talið er að um fjórtán hundruð manns séu á bakvið umsóknirnar.

Þetta kom fram á ársfundi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem haldinn var á Grand hóteli í morgun. Samkvæmt ársskýrslunni leituðu 208 einstæðar mæður til Ráðgjafarstofu í fyrra. Þá leituðu 145 einhleypir karlmenn eftir aðstoð, tæplega hundrað og tuttugu hjón með börn og 84 einhleypar konur. Helstu ástæður fyrir greiðsluerfiðleikum voru vegna veikinda, offjárfestinga eða lítilla tekna. Um það bil 64% þeirra sem leita eftir aðstoð eru í atvinnu og búa í leiguhúsnæði.

Ásta Sigrún Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofunnar, segir aðstæður einstæðra mæðra mjög erfiðar. Erfitt sé að vera með einar tekjur og ná endum saman. Ásta segir að Ráðgjafarstofa vilji láta kanna hvernig íslenska kerfið taki á móti barnafjölskyldum, til að mynda barnabætur og meðlög.

Þá segir Ásta einhleypa karlmenn vera í miklum skuldum þegar þeir leiti til Ráðgjafarstofu. Þetta séu aðallega karlmenn með háa skatta og meðlagsskuldir. Þeir eigi erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði og séu komnir í ákveðinn vítahring með fjármálin sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×