Innlent

Stóriðjufyrirtæki nota tvo þriðju af raforku í landinu

Björn Gíslason skrifar
MYND/GVA

Stóriðjufyrirtæki notuðu um fimmtungi meiri orku í fyrra en árið 2005 samkvæmt samantekt raforkuhóps Orkuspárnefndar. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Orkustofnun notuðu stóriðjufyrirtæki 6.265 gígavattsstundir af raforku í fyrra.

Aukninguna á raforkunotkun stóriðjufyrirtækja má fyrst og fremst rekja til stækkunar Norðuráls á Grundartanga. Bent er á að á síðasta áratug hafi raforkunotkun stóriðju aukist mikið eða um ríflega 3800 gígavattsstundir og nota stóriðjufyrirtæki nú um tvo þriðju raforkunnar í landinu.

Til samanburðar var almenn raforkunotkun tæplega 3.400 gígavattsstundir í fyrra og jókst hún um nærri fimm prósent á milli ára. Alls nam raforkuvinnsla í landinu nærri tíu þúsund gígavattstundum í fyrra og jókst um rúm 14 prósent frá fyrra ári en tap við flutning raforkunnar frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda var tæplega 270 gígavattsstundir.

Enn fremur kemur fram í tilkynningu Orkustofnunar að raforkunotkun á hvern íbúa hér á landi hafi aukist um rúmlega þrjár megavattsstundir í fyrra, úr 29 í 32, en frá árinu 2002 hefur raforkunotkun hér á landi verið sú mesta á heimsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×