Innlent

Góðgerðafélög þurfa ekki að berjast eins mikið og áður

Góðgerða-og sjúklingafélög þurfa ekki að berjast eins mikið í bökkum fjárhagslega nú eins og áður vegna gjafmildi stórfyrirtækja, segir formaður MS félagsins sem fékk í dag eina milljón króna frá Menningarsjóði Landsbankans. Sjötíu og fimm góðgerðarfélög fengu sömu fjárhæð frá Menningarsjóðnum í dag.

Í tilefni af 120 ára afmæli Landsbankans í fyrra var opnuð netþjónusta sem heitir Leggðu góðu málefni lið. Í nýlegu blaði sem bankinn gaf út er sögð saga tólf einstaklinga sem glíma við erfiðleika í lífi sínu hver á sinn hátt. Í tilefni af útgáfu blaðsins ákvað Menningarsjóður Landsbankans að styrkja 75 góðgerðarfélög og önnur málefni um 75 milljónir þannig að hvert félag fær eina milljón.

Félögin eru öll í styrktarþjónustu bankans og vonast forsvarsmenn hans að viðskiptavinir gerist mánaðarlegir bakhjarlar þeirra. Bankar og stórfyrirtæki hafa í auknum mæli gefið háar upphæðir til góðgerða - og menningarmála undanfarin ár.

Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS-félags Íslands, segir góðgerða-og sjúklingafélög verulega muna um fjárhagslegan stuðning frá bönkum og stórfyrirtækjum hér á landi.

Sigurbjörg segir rekstur og starfsemi flestra félaga hafa batnað verulega síðustu ár vegna stóraukinna framlaga frá stórfyrirtækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×