Innlent

Vélarvana bát rak hratt að landi

Feðga á fiskibáti frá Keflavík rak hratt að landi með 14 tonn af þorski í lestinni eftir að bátur þeirra varð aflvana við Sandgerði í gærkvöldi. Allt tiltækt björgunarlið var kallað út.

Hákon Matthíasson skipsstjóri segist þakka fyrir að hafa ekki verið kominn í innsiglinguna að Sandgerðishöfn þegar bátur hans varð vélarvana. Þá hefði farið illa. Hafborg KE 12 varð vélarvana um eina sjómílu norður af Sandgerði í vonsku veðri á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Tveir menn, feðgar frá Keflavík, voru um borð í bátnum sem rak hratt að landi. Hákon skipsstjóri kallaði eftir hjálp um neyðarbylgju og björgunarsveitir voru þegar settar í viðbragðsstöðu.

Einnig voru nærstaddir bátar látnir vita. Björgunarskip var sent út frá Sandgerði og nærstatt varðskip stefndi einnig á Sandgerði. Skömmu eftir að hjálparbeiðni var send út kom netabáturinn Maggi Jóns á vettvang og tók Hafborgu í tog. Hafborg KE var drekkhlaðin af fiski og þung í drætti og því tóku björgunarskip við og komu skipinu til hafnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×