Innlent

Fátt bendir til að kynjabundið starfsval sé á undanhaldi

Stjórnun höfðar meira til stúlkna en drengja og fátt bendir til þess að kynjabundið starfsval sé á undanhaldi. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Námsmatsstofnun gerði fyrir Samtök atvinnulífsins um hugmyndir 15 ára ungmenna um framtíðarstarf.

Rætt var við 15 ára ungmenni árin 2000, 2003 og 2006. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að megin þorri ungs fólks sem er á leið í framhaldsnám hér á landi stefnir að því að verða háskólamenntaðir sérfræðingar sem starfa í mennta eða heilbrigðisgeiranum eða við verslun og þjónustu.

Drengir hafa mun meiri áhuga á iðngreinum en stúlkur en á móti hafa þær meiri áhuga á sérfræðistörfum en drengir.

Ungmennin virðast ekki hafa mikinn áhuga á framleiðslugreinum en aðeins 2% drengja og 1% stúlkna búast við að starfa við slík störf í framtíðinni.

Samtök atvinnulífsins telja niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um framtíðarþróun á íslenskum vinnumarkaði og ljóst að kjósi Íslendingar ekki að starfa í framleiðslugreinum í framtíðinni þá verði starfsfólk af erlendum uppruna ríkjandi í þessum greinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×