Innlent

Mótmælir því að illa sé staðið að málum átröskunarsjúklinga

MYND/E.Ól

Landlæknir mótmælir þeim fullyrðingum sem fram hafi komið í fréttum, ekki síst vegna kynningar á tónleikum sem Forma-samtökin, um að illa sé staðið að málum átröskunarsjúklinga á Íslandi.

Á vef landlæknisembættins er birt bréf frá Matthíasi Halldórssyni landlækni. Þar er bent á að barna- og unglingageðdeild Landspítalans fái rúmlega 20 tilvísanir á ári vegna átraskana, en samsvarandi tala á fullorðinssviði sé um 120. Bæði á geðsviði Landspítalans og á barna- og unglingageðdeildinni starfi nú mjög kraftmikið heilbrigðisstarfsfólk að þessum málum.

Landlæknir segist sjálfur hafa rætt við aðstandendur átröskunarsjúklinga sem hefðu sagt að þeir fyndu nú „rosalegan mun til hins betra frá því sem áður var", svo orðrétt sé vitnað til þeirra.

Þá bendir landlæknir á að engir biðlistar séu í málaflokknum svo að segja megi að átröskunarsjúklingar hafi þannig forgang fram yfir aðra sjúklinga. Mikilvægt sé þó að uppbygging haldi áfram og hlúð verði enn betur að faglegri starfsemi í tengslum við átraskanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×