Innlent

Flutti fyrirlestur í stærsta háskóla Bandaríkjanna

Ólafur Ragnar Grímsson og John Glenn, fyrrverandi geimfari, ræða saman í gær
Ólafur Ragnar Grímsson og John Glenn, fyrrverandi geimfari, ræða saman í gær

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti í gær fundi með forsvarsmönnum bæði Ohio-ríkis og Ohio-ríkisháskólans, stærsta háskóla Bandaríkjanna, þar sem hann flutti fyrirlestur um loftlagsbreytingar og hlutverk Íslands í þeirri baráttu.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá forsetaskrifstofunni kom fram ríkur vilji hjá forsvarsmönnum Ohio-háskólans til að efla samstarf við íslenska vísindasamfélagið um rannsóknir á fjölmörgum sviðum og voru undirritaðir þrír samningar milli Ohio-háskólans og þriggja íslenskra háskóla, Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Akureyri. Þá voru jafnframt mótaðar tillögur um rannsóknarverkefni í landgræðslu, orkumálum, jöklafræðum og um aðgerðum gegn loftslagsbreytingum.

Forseta Íslands var boðið að flytja opnunarfyrirlestur í nýrri alþjóðlegri fyrirlestraröð sem Ohio-háskóli hefur efnt til. Fyrirlestur forseta bar heitið The Challenges of Climate Change: Iceland - A Laboratory for Global Solutions. Hann fjallaði um framlag Íslands á sviði alþjóðlegra rannsókna og hvernig Íslendingar gætu með samvinnu við fremstu háskóla og rannsóknarstofnanir í veröldinni vísað veginn að nýjum lausnum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og gróðureyðingu.

Fyrirlesturinn fjallaði einnig á ítarlegan hátt um frumkvæði Íslendinga í nýtingu hreinnar orku, þátttöku landsins alþjóðlegu vetnisverkefni og tilraunum til að eyða koltvísýringi úr andrúmsloftinu með því að dæla honum djúpt niður í iður jarðar þar sem vonir standa til að hann bindist í föstu formi. Segir í tilkynningunni að fyrirlesturinn hafi afar fjölsóttur og að honum loknum svaraði forsetinn mörgum spurningum frá vísindamönnum og stúdentum.

Í ferð sinni til Ohio ræddi forsetinn einnig við nýkjörinn ríkisstjóra Ohio, Ted Strickland, um aukna samvinnu milli Ohio og Íslands á sviði vísinda, rannsókna og viðskipta. Hann ræddi einnig við John Glenn, fyrrverandi öldungardeildarþingmann og geimfara en hann var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem fór hringinn í kringum jörðina. Mikla athygli vakti og fyrir tíu árum þegar hann endurtók leikinn og varð þá jafnframt elsti maðurinn til fara út í geiminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×