Innlent

Ísland í 8. sæti yfir leiðandi upplýsingatæknilönd

MYND/E.Ól

Ísland fellur úr fjórða sæti í það áttunda á lista yfir þau lönd sem fremst standa á sviði upplýsingatækni samkvæmt nýrri skýrslu alþjóðlegu samtakanna World Economic Forum. Frændur okkar Danir eru efstir á listanum á ár en þeir voru í þriðja sæti í fyrra.

Þar á eftir koma Svíar, Singapúrar, Finnar og Svisslendingar en öll norrænu ríkin eru meðal þeirra tíu efstu á sviði upplýsingatækni. Á vef World Economic Forum segir að Danir hafi færst upp listann undanfarin ár vegna góðs reglugerðaumhverfis ásamt því sem danska ríkisstjórnin hafi skýra sýn í þróun og notkun upplýsingatækni í landinu.

Bandaríkin falla hins vegar niður um sex sæti á milli ára, úr því fyrsta í það sjöunda. Alls var upplýsingatækni skoðuð í 122 löndum en þetta er í sjötta sinn sem skýrsla World Economic Forum um upplýsingatækni er gefin út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×