Innlent

Síbrotamaður í áframhaldandi gæsluvarðhald

MYND/GVA

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir síbrotamanni á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti en þó ekki lengur en til 18. maí.

Maðurinn var dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir nytjastuldi, þjófnaði, skjalafals, fjársvik og brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni í desember síðastliðnum en hann áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 15. september en hann á að baki 25 ára sakaferil. Fram kom í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms að maðurinn hefði ítrekað rofið skilorð og þá taldi ríkissaksóknari yfirgnæfandi líkur á því að maðurinn myndi halda áfram brotum yrði hann látinn laus úr gæslu áður en endanlegur dómur gengi í máli hans.

Féllst Hæstiréttur líkt og héraðsdómur á þessa röksemd saksóknara og staðfesti því gæsluvarðhaldsúrskurðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×