Innlent

Fyrsta áfanga í GSM-væðingu hringvegar lokið

Starfsmenn Símans luku um miðjan síðasta mánuð fyrsta áfanga verkefnis sem felst í því að ljúka við að GSM-væða hringvegarins. Þann 16. mars var kveikt á nýjum sendum sem þekja 33,5 km vegakafla. Þau svæði sem um er að ræða eru Streiti, Álftafjörður, Hvalnesskriður, Papafjörður og Almannaskarð á Austurlandi og Vatnsdalur í Húnaþingi.

Eftir því sem segir í tilkynningu frá Símanum hófst verkefnið í janúar þegar Fjarskiptasjóður og Síminn undirrituðu samning um að klára GSM-væðingu hringvegarins og fimm fjölfarinna fjallvega. Reiknað er með að verkefnið taki eitt ár og á þeim tíma verður 500 kílómetra vegakafli kominn í GSM-samband. Einnig verður settur upp sendir í Flatey á Breiðarfirði.

Næsti áfangi er Norðurárdalur-Öxnadalur og Vatnsnesfjall sunnanvert. Stefnt er að því að þeim áfanga ljúki í júli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×