Innlent

Niðurstaðan mikil vonbrigði

MYND/GVA

Baldur Baldursson hjá Hag Hafnarfjarðar, sem studdi stækkun álversins í Straumsvík, sagði niðurstöðuna í kvöld mikil vonbrigði og að stuðningsmenn Hags væru mjög ósáttir.

Aðspurður uim það hvað hann teldi hafa valdið því að Hafnfirðingar hefðu ákveðið að hafna stækkuninni sagði Baldur að margar ástæður væru fyrir því. Honum sýndist þó sem Hafnfirðingar hefðu fylkt sér um mengunarþátt álversins en fullyrðingar um þann þátt hefðu verið alrangar.

Þá taldi Baldur ekki líklegt að atkvæðagreiðsla sem þessi yrði notuð aftur þar sem hún hefði ekki komið nægilega vel fram. Hann sagði að fólk kysi sér fulltrúa á fjögurra ára fresti og að þeir ættu að taka ákvörðun sem þessa. Það væri ekki rétt að stilla bæjarbúum upp með þessum hætti og láta þá ákveða þetta. Hann gerði ekki ráð fyrir að Hagur Hafnarfjarðar myndi fara fram á endurtalningu þrátt fyrir að mjótt væri á munum.

Enn fremur sagði Baldur aðspurður að upplýsingaflæðið hefði verið mikið í málinu en margt af því sem fram hefði komið hefði ekki verið í samræmi við raunveruleikann og það hefði verið aðalvandamálið í baráttunni.

Þá sagðist hann vona að niðurstaðan klyfi ekki Hafnfirðinga í tvær fylkingar til frambúðar. Ljóst hefði verið að mjög skiptar skoðanir væru um málið og þá væri einnig ljóst að þegar og ef það færi að harðna á dalnum færi fólk að rifja upp ákvarðanir sínar. Hann vonaði þó að það myndi gróa um heilt milli bæjarbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×